Innskráning í Karellen

Eins og einkunnarorð okkar, samvera, leikur og gleði, gefa til kynna er samveran á milli allra Ósara okkur afar dýrmæt. Þess vegna er samvinna einn af okkar hornsteinum og það sem drifið hefur starfið áfram frá upphafi leikskólans. Foreldrar hafa jafnframt tækifæri til að hafa áhrif á starfið, stefnuna, umhverfið og ýmislegt annað sem að kemur að leikskólastarfinu á Ósi og samveru á milli allra Ósara.
Samvinnan hefur haft margar birtingarmyndir í gegnum tíðina. Fastir liðir í samstarfinu eru margir og fjölbreyttir og snúa bæði að því að reka skólann og svo því að skemmta sér saman og njóta samverunnar.

• VINNUDAGAR FORELDRA. Bæði á haustin og vorin koma foreldra og börn saman á Ósi og vinna ýmis verkefni sem þarf að gera í leikskólanum. Þau fá einnig verkefni sem gera skólann skemmtilegri eins og til dæmis að búa til ný leiksvæði.

• STÓRFUNDIR. Foreldrar hittast reglulega og fara yfir starfið, fasta liði og sinna almennum fundarstörfum. Stórfundir eru mikilvægir þættir í samvinnunni og vettvangur þar sem foreldrar geta haft áhrif á starf leikskólans.

• HAUSTSAMVERA. Foreldrar og börn hittast og hópurinn hristir sig saman fyrir veturinn.

• FYLLT Á BÚRIÐ. Foreldrar og börn koma saman og gera slátur og grænmetisbuff sem börnin fá svo að njóta út skólaárið.

• HAUSTFAGNAÐUR. Foreldrar og starfsfólk hittist og gerir sér glaðan dag.

• JÓLAUNDIRBÚNINGUR. Foreldrar sjá til þess að jólatré sé á Ósi. Annað hvort kemur jólasveinninn með það eða það er samvera úti í náttúrunni þar sem að sveinki birtist með tréð. Þá hjálpa foreldrar til við að skreyta og við matseld fyrir jólaveisluna sem haldin er rétt fyrir jól.

• FRIÐARSTUND. Fyrir jólin bjóða börnin foreldrum sínum í leikskólann og halda fyrir þau söngstund og bjóða þeim smákökur sem að þau hafa bakað. Einnig koma foreldrar með eitthvað góðgæti í pálínuboð.

• PÚKAGLEÐI. Í kringum þrettándann er haldið frekar óhefðbundið jólaball þar sem foreldrar og börn koma saman og ganga í kringum jólatréð, eða það sem er eftir af því. Að því búnu er trénu fargað EÐA ENDURNÝTT og jólaskrautið á Ósi tekið saman.

• ÁRSHÁTÍÐ. Foreldrar og starfsfólk hittist og slettirA úr klaufunum.

• ÞORRA- OG GÓUKAFFI. Foreldrar og aðrir aðstandendur eru boðnir í kaffi og með því á Ósi.

• SUMARBÚSTAÐAFERÐ ÓSARA. Sú venja hefur skapast að allir Ósara leigja bústaði og eiga góðar samverustundir eina helgi að vori eða hausti.

• SUMARHÁTIÐ. Foreldrar sjá um sumarhátið Óss sem haldin er í garðinum okkar.

• ÚTSKRIFTARHÁTÍÐ. Útskriftarhópurinn fer í veglega útskriftarferð og gistir síðan saman á Ósi. Þegar þau vakna undirbúa þau sig fyrir útskriftarhátíðina þar sem foreldrum og öðrum aðstandendum er boðið.

• UMSJÓN MEÐ GARÐINUM. Á Ósi erum við með gróðurhús, berjarunna, grænmetisgarð og kryddjurtagarð og sjá foreldrar og börn um að taka til í beðunum og vökva á sumrin