Innskráning í Karellen

Barnaheimilið Ós er foreldrarekinn leikskóli í Litla Skerjafirði. Skólinn á sér langa sögu en hann hefur ávallt verið rekinn af hugsjónaríkum foreldrum í góðu samstarfi við menntað fagfólk.

Með hugtakinu foreldrarekinn er ekki einungis átt við rekstrarformið með stjórn, starfsráði, stórfundum, starfsdögum og fleiru, heldur einnig að foreldrar og aðrir aðstandendur barnanna á hverjum tíma hafi tækifæri til að fylgjast með og móta starfsemina þannig að eðlilegt samhengi skapist á milli uppeldis á Ósi og heimili barnsins. Ábyrgðin er sameiginleg og með þessu móti gefast foreldrum möguleikar á stefnumörkun. Starfið á Ósi endurspeglar því vilja og áhuga foreldra og starfsfólks á hverjum tíma.

Við inngöngu á Barnaheimilið Ós verða barnið og foreldrar þess hluti af Ósfjölskyldunni. Eins og hjá öðrum fjölskyldum er gagnkvæm tillitssemi, virðing og traust allra fjölskyldumeðlima grundvöllurinn fyrir því að góður árangur náist í uppeldinu.

Á Ósi er mikið lagt upp úr hollu og góðu fæði sem matreitt er af mikilli alúð frá grunni í eldhúsi skólans.

Sem stendur er Ós eini foreldrarekni leikskólinn í Reykjavík.

Á Ósi geta börnin byrjað um eins og hálfs árs og dvalið fram að grunnskólagöngu. Að öllu jöfnu eru um 34 börn í leikskólanum.