Spurt og svarað um lífið á Ósi.
Af hverju er skólinn kallaður barnaheimili?
Þegar leikskólinn var stofnaður árið 1973 hét hann Tilraunabarnaheimilið Ós. Þá var skólinn til húsa við Dugguvog í húsi sem kallað var Ós. Það er svolítið síðan hætt var að nota „tilrauna-forskeytið“ því tilrauninni er formlega lokið. Hún heppnaðist með ágætum. Eftir stendur Barnaheimilið Ós.
Af hverju fóstrur?
Það er arfleifð frá upphafsárunum líka að starfsfólkið á Ósi kallist fóstrur. Okkur finnst það fallegt orð og lýsandi því þar starfar fólk sem fóstrar börnin okkar á svo margan og mikilvægan hátt. Margar fóstrur á Ósi hafa þó verið leikskólakennaramenntaðar.
Hvað gera foreldrarnir á Ósi?
Foreldrar barna á Ósi taka þátt með því að reka skólann og marka stefnu hans. Ákvarðanir um slíkt eru teknar á stórfundum sem haldnir eru mánaðarlega yfir skólaárið og þar eiga allir nemendur sinn fulltrúa. Foreldrar skiptast einnig á að sitja í stjórn skólans. Foreldrarnir ráða leikskólastjóra og í samvinnu við hann taka þeir ákvarðanir um daglegt starf og áherslur hverju sinni. Sjá annars nánar um verkefni foreldra og umgjörð í starfsreglum Óss (hlekkur).
Af hverju er dýrara að vera með barn á Ósi en í venjulegum leikskóla?
Leikskólagjöld á Ósi eru um það bil 15% hærri en leikskólagjöld í almennum leikskólum Reykjavíkurborgar, líkt og hjá flestum sjálfstætt starfandi skólum. En á Ósi fær fjölskyldan líka meiri og persónulegri þjónustu og viðmót en í flestum öðrum skólum, og þú sem foreldri hefur mun meira um það að segja hvernig námi barnsins er háttað á þessu fyrsta skólastigi og áherslurnar í skólastarfinu. Kynni við aðrar fjölskyldur stækka líka „öryggisnetið“ og tengslanetið ykkar. Á Ósi er mikið lagt upp úr góðum samskiptum og náinni samvinnu.
Er biðlistinn langur?
Það er misjafnt. Leikskólastjórinn okkar getur svarað því best. Sendu línu á leikskolastjori@barnaheimilidos.is.
Hvar sæki ég um?
Hafir þú áhuga á plássi á Ósi fyrir barnið þitt skaltu endilega hafa samband við leikskólastjóra eða stjórn og við sendum þér umsóknarblað.
Má ég koma í heimsókn?
Þú ert hjartanlega velkomin í heimsókn á Ós. Sendu línu á leikskolastjori@barnaheimilidos.is ef þú vilt setja niður heppilegan tíma.
Hvernig virkar þetta eiginlega?
Þetta virkar reyndar býsna vel. Það hentar ekki öllum fjölskyldum að vera á foreldrarreknum leikskóla en fyrir þá sem vilja nána samvinnu á þessu fyrsta skólastigi barnsins síns er fyrirkomulagið heppilegt. Þið eignist líka marga góða vini, á öllum aldursskeiðum.
Af hverju þarf ég að gera svona margt á Ósi?
Því á Ósi hjálpast allir að. Stundum er mikið að gera, og þá hjálpa þeir sem geta hverju sinni – ekki bara pabbar og mömmur, stundum koma líka ömmur og afar á Ós.
Hvernig er maturinn?
Það er metnaðarfullur matráður á Ósi. Hún heitir Lina og hún eldar mjög hollan og heilnæman mat frá grunni. Á þriðjudögum og fimmtudögum er fiskur á Ósi. Aðra dagar er hæfileg blanda af nútímalegum heimilismat þar sem áherslan er á hollustuna og fjörið.
Hvað er Brekkó?
Það er hefð að foreldrar, börn og fóstrur fari saman í sumarbústaðaferð á hverju vori. Þá eru leigðir bústaðir í Brekkuskógi og Ósarar (líka útskrifaðir) skemmta sér saman í nokkra daga.
Þarf alltaf að vera partý?
Ekki alltaf, en það er skemmtilegra. Á Ósi kynnast foreldrarnir vel, ekki bara inni á leikskólanum heldur bindast margir vináttuböndum.