Innskráning í Karellen

Samvinnan milli fjölskyldna og starfsfólks Óss er okkur afar dýrmæt og fjölskyldur barnanna í leikskólanum eru partur af Ósfjölskyldunni. Eins og hjá öðrum fjölskyldum er gagnkvæm tillitssemi, virðing og traust allra fjölskyldumeðlima grundvöllur fyrir því að góður árangur náist í uppeldinu.
Sem stendur er Ós eini foreldrarekni leikskólinn í Reykjavík. Það er því einstakt tækifæri fyrir fjölskyldur sem leggja áherslu á virka fjölskyldusamveru og þátttöku í námi barnanna að vera á Ósi. Samvinna hefur alla tíð verið drifkrafturinn í starfinu og helsta ástæða þess að skólinn hefur starfað í öll þessi ár. Vilji foreldra og starfsfólks til að reka skólann í sameiningu hefur skapað sérstakt andrúmsloft þar sem börnin og fjölskyldur þeirra fá tækifæri til að skapa sér heildstæða veröld í heimilislegu umhverfi. Það er algengt að á Ósi stofnist til áralangrar vináttu milli fjölskyldna er einn dýrmætasti þáttur samstarfsins.