Innskráning í Karellen

Starfsreglur Óss (í gildi frá 7. maí 2013)

1. Leikskólinn Barnaheimilið Ós er rekið á grundvelli þeirra hugmynda sem sjást hér að ofan, þeir foreldrar sem eiga börn á leikskólanum hverju sinni bera alla ábyrgð á rekstri og starfsemi hans, þar með talið fjárhagslega ábyrgð. Þegar barn er tekið inn á Ós ber foreldrum þess að ætla sér og barninu aðlögunartíma, a.m.k. þrjá til fjóra daga, til að kynna sér starfsemina. Foreldrum er bent á að kynna sér hjá starfsfólki þær venjur er tíðkast á Ósi með það í huga að samræmi sé milli þeirra og þess sem tíðkast á heimili barnsins. Varðandi foreldrastarfið skulu foreldrar snúa sér að vinafjölskyldum (sjá lið 19).

2. Stórfundur eru æðsta ákvörðunarvald barnaheimilisins. Stórfundir skulu haldnir í annarri viku hvers mánaðar frá september til maí. Á fundum í september og janúar skal leikskólastjóri og starfsfólk gera grein fyrir nýliðnu starfstímabil sem er helmingur almanaksárs. Á þeim fundum skal einnig leitað eftir hugmyndum fyrir næsta starfstímabil. Leikskólastjóri kynnir áætlun næsta starfstímabils á stórfundi í október og maí. Atkvæði á stórfundum reiknast eftir fjölda barna sem eiga sér fulltrúa þar, að undanskildum börnum starfsmanna, samkvæmt ráðningarsamningi. Afl atkvæða ræður niðurstöðu mála.

3. Stórfund skal boða með minnst fimm daga fyrirvara. Foreldrar geta sett mál á dagskrá fundarins með því að tilkynna stjórn það a.m.k. sjö dögum fyrir stórfund. Ákvörðun má ekki taka um málefni sem ekki hafa verið tilkynnt með fundarboði. Stórfund má halda án starfsfólks samkvæmt ákvörðun stjórnar og skal það koma fram í fundarboði.

4. Verkefni stórfunda eru:

Umræður og stefnumörkun um uppeldi barnanna.

• Ræða athugasemdir og ábendingar frá foreldrum og starfsfólki.

• Kynning á því sem starfsfólk er að vinna að með börnunum.

• Kynning á því sem stjórn er að vinna að.

• Fjármál og rekstur heimilisins.

• Verklegar framkvæmdir.

• Kynning á inntöku nýrra barna og ráðningu starfsfólks.

• Ráðning leikskólastjóra.

• Samþykkt skólanámskrár.

• Önnur mál.

5. Aðalfundur. Stórfundur í aprílmánuði skal vera aðalfundur.

Verkefni aðalfundar eru:

• Afgreiðsla ársreikninga.

• Breytingar á starfsreglum ef þurfa þykir.

• Kosning stjórnar.

• Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.

• Kosning tölvuumsjónarmanns.

• Kosning öryggisumsjónarmanns.

• Kosning trúnaðarmanns foreldra.

Foreldrar geta gert tillögur um breytingar á starfsreglum með því að tilkynna stjórn það a.m.k 10 dögum fyrir aðalfund.

6. Starfsdagar foreldra eru þrír á ári eða eins oft og stjórn þykir þurfa. Þeir skulu auglýstir með minnst fimm daga fyrirvara.

7. Mætingarskylda er á stórfundi og starfsdaga. Boða skal forföll. Þátttökuskylda er í daglegum rekstri barnaheimilisins ef aðstæður krefjast. Úttekt skal gerð á mætingu foreldra í janúar og ágúst hvert ár. Foreldrar sem mæta á minna en 2/3 funda og starfsdaga á hverju tímabili hljóta sjálfkrafa sekt sem nemur fjórðungi daggjalda nema stjórn ákveði annað.

8. Stjórn skal skipuð fimm foreldrum. Stjórn er kosin til eins árs í senn á aðalfundi, þannig að þrír meðlimir eru kosnir eitt ár og tveir annað ár. Stjórnarmeðlimir skipta með sér hlutverkum formanns, gjaldkera, ritara, umsjónarmanns starfsráðs og umsjónarmanns vinafjölskyldna. Starf stjórnar er ólaunað. Heimilt er hverju foreldri að sitja í stjórn einu sinni með hverju barni, í mesta lagi tvö ár í senn.

9. Verkefni stjórnar eru m.a.:

• Boðun og stjórnun stórfunda með dagskrá, fundarstjórn, skráningu fundargerða og skráning á mætingu foreldra.

• Undirbúningur tillagna fyrir stórfundi.

• Framkvæmd á ákvörðun stórfunda.

• Gerð þvottalista foreldra.

• Gerð lista yfir vinafjölskyldur, setu foreldra í starfsráði og mætingu foreldra.

• Upplýsir starfsráð um rekstur og starfsemi Óss.

• Ráðningarviðtöl leikskólastjóra.

• Ákvarðanir um inntöku nýrra barna í samráði við leikskólastjóra.

• Ákvarðanir um ráðningu eða uppsögn starfsfólks í samráði við leikskólastjóra.

• Gerð skriflegra ráðningarsamninga við starfsfólk í samvinnu við leikskólastjóra.

• Samskipti við opinbera aðila, eigendur húsakynna og aðra, í samvinnu við leikskólastjóra.

• Ábyrgð á daglegum rekstri barnaheimilisins í samvinnu við leikskólastjóra.

• Gerð ársskýrslu foreldra í samvinnu við leikskólastjóra.

• Stjórn skal halda fund með starfsmannahópnum í janúar, maí og september. Þar skal stjórn m.a. taka við athugasemdum og koma á framfæri til foreldra.

• Ber ábyrgð á nefndarstörfum innan foreldrahópsins.

• Úttekt á mætingu foreldra.

• Innheimta daggjalda.

• Úthýsir bókhaldi og greiðsluþjónustu barnaheimilisins.

• Umsjá með því að fjármál séu innan þess ramma sem settur er í gildandi fjárhagsáætlun.

• Gerir skriflega grein fyrir fjárhagsstöðu og fjárhagsáætlun á stórfundum í janúar, maí og september og gerir tillögu um upphæð daggjalda.

• Greiðir laun starfsfólks og launatengd gjöld.

10. Leikskólastjóri er ráðinn af stórfundi. Deildarstjórar eru ráðnir af stjórn í samráði við leikskólastjóra.

11. Verkefni leikskólastjóra eru m.a:

• Dagleg stjórn á starfsemi barnaheimilisins samkvæmt skólanámskrá, stefnumörkun foreldra og fyrirmælum stjórnar.

• Ráðningarviðtöl starfsfólks.

• Starfsmannaviðtöl.

• Munnlegar og skriflegar áminningar starfsmanna.

• Seta í inntökunefnd ásamt stjórnarmeðlimum.

• Greinargerð á stórfundum fyrir barnastarfi nýliðins starfstímabils.

• Tillögugerð á stórfundum um barnastarf á komandi starfstímabili.

• Tillögugerð um verkefni foreldra á starfsdögum.

• Þátttaka í stórfundum samkvæmt boðun.

• Þátttaka í stjórnarfundum samkvæmt boðun.

12. Starfsráð skal skipað tveimur foreldrum, fulltrúum tveggja barna, í einn mánuð í senn. Fulltrúi barns tekur ekki sæti aftur í starfsráði fyrr en fulltrúar allra annarra barna hafa setið þar. Skylt er að taka tilnefningu í starfsráð. Umsjónarmaður starfsráðs gerir yfirlit yfir og skipuleggur störf starfsráðs. Tilgangur starfsráðs er að virkja alla foreldra sem standa að Ósi við rekstur leikskólans. Ef foreldrar eiga fleiri en eitt barn á leikskólanum þurfa þeir að sitja í starfsráði einu sinni fyrir hvert barn.

13. Verkefni starfsráðs eru m.a.:

• Undirbúningur stórfunda. Raðar stólum og borðum og hellir upp á kaffi.

• Boðun, verkstjórn og skipulag starfsdaga auk nauðsynlegra innkaupa.

• Undirbúningur jólahátíðarinnar á Ósi.

• Frágangur húsakynna eftir stórfundi, vinnudaga og aðrar samkomur foreldra.

• Önnur verkefni er stjórn ákveður.

14. Stjórnarfundir skulu haldnir viku fyrir stórfundi og á öðrum tímum eftir þörfum. Afl atkvæða stjórnarmeðlima ræður niðurstöðu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Stjórnarfundir eru bundnir trúnaði.

15. Tölvuumsjón. Á aðalfundi skal kjósa tölvuumsjónarmann. Viðkomandi skal hafa umsjón með tölvukosti barnaheimilisins og annast viðhald og viðgerðir.

16. Daggjöld eru greidd 11 mánuði á ári og skulu standa undir hallalausum rekstri barnaheimilisins. Á barnaheimilinu eru 34 barnapláss. Öll barnapláss skulu ávallt vera fullnýtt. Daggjöld eru greidd fyrirfram og er gjalddagi og eindagi 1. hvers mánaðar. Dráttarvextir reiknast frá og með eindaga. Séu leikskólagjöld enn ógreidd 10 dögum eftir gjaldaga fær greiðandi sent ítrekunarbréf. Hafi krafa ekki verið greidd 50 dögum eftir gjalddaga er hún færð í milliinnheimtu. Krafa sem ekki innheimtist í milliinnheimtu fer í löginnheimtu 120 dögum frá gjalddaga. Barnaheimilið áskilur sér rétt til þess að segja upp dvalarsamningi barna foreldra hafi greiðsla ekki borist 110 dögum frá gjalddaga. Uppsögn miðast við mánaðamót og er uppsagnarfrestur einn mánuður.

17. Fjármál eru fastur liður á dagskrá stjórnarfunda sem og stórfunda í janúar, maí og september. Allir stjórnarmeðlimir og leikskólastjóri skulu ávallt eiga aðgang að yfirliti yfir fjárhagsstöðu Óss. Ós skal eiga varasjóð sem nemur rekstrarkostnaði eins mánaðar til að mæta ófyrirséðum útgjöldum.

18. Inntökunefnd skipa stjórnarmeðlimir auk leikskólastjóra. Hlutverk nefndarinnar er að leitast við að tryggja að inn á leikskólann veljist foreldrar sem líklegir eru til að sinna skyldum þeim sem fylgja því að þiggja pláss á Ósi. Nefndin forgangsraðar umsækjendum eftir þörfum leikskólans hverju sinni og hefur til hliðsjónar viðmiðin í 20. lið. Þá skal leikskólastjóri kynna barnaheimilið ítarlega fyrir foreldrum þeirra umsækjenda sem möguleika hafa á plássi.

19. Vinafjölskyldur. Þegar nýjar fjölskyldur bætast í hóp Ósara skal umsjónarmaður vinafjölskyldna sjá til þess að þeim sé útveguð vinafjölskylda. Vinafjölskylda skal vera til stuðnings og veita upplýsingar um rekstur og foreldrastarf.

20. Við val nýs barns á Ósi skal taka mið af eftirfarandi:

• Aldur og kyn barnsins, þ.e. hvernig það passar inn í þann hóp sem fyrir er á heimilinu.

• Aldur umsóknar.

21. Uppsagnarfrestur. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur foreldra og stjórnar er tveir mánuðir miðað við næstu mánaðarmót. Uppsagnarfrestur gildir einnig fyrir foreldra barna sem hefja grunnskólanám.

22. Opnunartími Óss. Á fyrsta stórfundi í september skal fjallað um opnunartíma leikskólans fyrir veturinn sem fer í hönd. Breyting á opnunartíma má þó ekki verða til þess að foreldri geti ekki lengur haft barn sitt á Ósi. Ekki er æskilegt að barn dvelji lengur á Ósi en átta klukkustundir að meðaltali á dag. Ef barn kemur ekki í hádegismat ber að tilkynna það fyrir kl. 09:30. Ef barn er sótt eftir lokunartíma greiðir foreldri þess barns sekt sem nánar skal ákveðið um og auglýst af stjórn.

23. Sumarlokun Óss. Heimilt er að loka leikskólanum í allt að fimm vikur yfir sumartímann. Á stórfundi í janúar skal stjórn kanna hug foreldra til sumarlokunar það árið og hafa skriflega kosningu um tímasetningu meðal foreldra. Málið skal til lykta leitt á næsta stórfundi. Öll börn skulu fá a.m.k. fjögurra vikna samfellt sumarleyfi á tímabilinu júní til ágúst ár hvert.

24. Viðtalstímar og foreldraviðtöl. Viðtalstími leikskólastóra er einu sinni í viku samkvæmt auglýsingu. Foreldraviðtöl skulu haldin tvisvar á ári, í nóvember og mars. Þar skal starfsfólk ræða einslega við foreldra. Foreldar geta einnig óskað eftir fundi með einstökum starfsmönnum um mál sem upp kunna að koma.

25. Trúnaðarmaður. Starfsfólk velur sér trúnaðarmann í apríl til eins árs í senn úr hópi foreldra. Trúnaðarmaður er tengiliður milli foreldra og starfsfólks. Hann hefur milligöngu í ágreiningsmálum sem upp geta komið.

Markmið og starfsreglur þessar gilda frá 7. maí 2013